Stjörnufræðifélag Vestmannaeyja

SFV - Velkomin

Góð mæting á Geimflaugafyrirlestur

Þriðjudagskvöldið 21. janúar s.l. stóð Stjörnufræðifélagið fyrir opnum fyrirlestri í Safnahúsinu.

Mikil aðsókn var að fyrirlestrinum og mættu 42 félagsmenn og aðrir gestir til að hlýða á Sævar Helga Bragason, formann Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, en Sævar er um þessar mundir með fasta þætti um Tunglferðirnar á sunnudögum á RÚV kl. 18:15.

 Stjörnufræðifélagið hefur áður fengið Sævar hingað til Vestmannaeyja og þykir hann með skemmtilegri fyrirlesurum á sínu sviði.

 Umfjöllunarefnið voru geimförin Rosetta og Voyager I og II.

Góð mætingKönnunarfarinu Rosettu er ætlað að kanna Halastjörnuna Churyumov-Gerasimenko en ferðaðlag þangað er ekki heiglum hent. Geimfarinu var skotið á loft 2. mars 2004 og þurfti að spinna sig þrisvar sinnum frá Jörðu til þess að ná æskilegum hraða í ferð sína og þá notaði geimfarið einnig þyngdarkraft Mars einu sinni. Á mánudaginn 20. janúar var geimfarið vakið eftir 31 mánaða dvala og stefnir nú til stefnumóts við halastjörnuna og mun ná henni í ágúst 2014 og senda lendingarfarið Philae niður á yfirborð halastjörnunnar í nóvember 2014. Ef ætlunarverkið tekst þá er það í fyrsta skipti sem lending tekst á halastjörnu.

 

Voyager geimförin eru kunn vegna þess að þau eru fjarlægustu manngerðu hlutir í geimnum, þeim var skotið á loft 1977 og hafa því ferðast í bráðum 40 ár á leið út úr sólkerfinu okkar. Á leið sinni hafa geimförin nálgast reikistjörnurnar hverja af annarri og veitt okkur nýjar og ómetanlegar upplýsingar um þær sem og mörg tungla þeirra. Um leið hefur þyngdartog reikistjarnanna verið nýtt til að veita geimförunum enn meiri hraða. Nú er Voyager I komin út fyrir allar reikistjörnurnar, en einnig út fyrir mörk sólvindsins og inn í agnastreymi frá öðrum sólum í nágrenninu eða 20.000 milljón kílómetra frá sólu. Þó er geimfarið ekki búið að ferðast nema tæplega 1/1500 af fjarlægðinni til næstu sólar, en þar sem það ferðast í sömu átt og sólin okkar er það komið út fyrir agnastreymi sólar, sem myndar eins og gárur í vatni og skemmst er út frá henni í stefnuátt hennar, bara nákvæmlega eins og um skip væri að ræða.

Gera má ráð fyrir að geimfarið komi nálægt sólinni Gliese 445 árið 42014 ( eftir fjörutíuþúsund ár) og bíðum við spennt eftir því!

Sævar útskýrði þessa hluti á einfaldan og skemmtilegan hátt og höfðu gestir gaman að og vonandi verður unnt að fá hann hingað fljótlega aftur.

 

  Sævar Helgi

Joomla16 Appliance - Powered by TurnKey Linux