Stjörnufræðifélag Vestmannaeyja

SFV - Velkomin

Halastjörnuskoðun 14. mars 2013

14.03.2013

 Á dagskrá er að leitast við að berja Halastjörnuna PanStarrs augum, en hún fór framhjá sólu sunnudaginn 10. mars s.l. í u.þ.b. 50 milljón kílómetra fjarlægð frá sólu.  Nú er halastjarnan á leið frá sólu og sést næstu daga frá norðurhveli jarðar.  Fyrst til að byrja með er hún ansi nálægt sólu og því kemur sólarbirtan til með að trufla nokkuð útsýn til hennar.  Síðar í mars mun hún fjarlægast sólu það mikið að hún ætti að sjást betur, en þá mun hún jafnframt dofna vegna fjarlægðar frá hita sólar og einnig er vorið að nálgast svo birta eykst, svo þetta vinnur hvað á móti öðru.

  En hvað um það, hvort sem við sjáum nú halastjörnuna eða ekki þá verður tilefni til að skoða eitthvað fleira sem fyrir augu ber, en nemendur á nýjasta stjörnufræðinámskeiðinu hjá VISKU verða með í för. Taka verður mið af því að myrkur færist smám saman yfir og töluverð birta er á himni milli kl. 20 og 21.

  Ef það verður skýjað þá verður ekkert af skoðuninni.  En munið umfram allt að vera vel klædd.

Panstarrs séð frá Paranal 

Fróðleikskorn um halastjörnur:  Þær eru fyrirbæri að mestu úr ryki og vatnsís (stundum nefndir skítugir snjóboltar) og ferðast stundum langt utan úr okkar hefðbundna sólkerfi, allt utan úr Oortskýinu, og eiga svo stefnumót við sólina, en hverfa þar á eftir aftur út í óravíddir geimsins. Í venjulegu ástandi eru þessi fyrirbæri gaddfreðin, en sólin hitar og leysir upp ystu lögin og úr þeim streymir efni sem sólin lýsir upp og þannig myndast halinn. Stærð kjarna halastjarna er æði misjöfn, allt frá 100 metrum upp í allmarga kílómetra.

Á meðfylgjandi mynd sést Panstarrs á
Suðurhimni frá Paranal stjörnustöðinni

Halley halastjarnan er t.d. 15x7x7 kílómetrar að stærð. Flestar halastjörnur eiga sér ákveðnar brautir um sólu, sem eru mjög ílangar og þær heimsækja þá sólina á ákveðnum tíma (umferðatími þeirra um sólu). Þessi umferðartími er æði misjafn og er stundum nokkur ár, t.d. halastjarna Halleys sem fer sinn hring á 76 árum, allt upp í það sem við gætum kallað óendanlegt (eða a.m.k. út fyrir sögulegar heimildir) og því eru alltaf að finnast nýjar halastjörnur sem eiga uppruna sinn langt að.  Margar þessar halastjörnur fara mjög nálægt sólu á ferð sinni og stundum er heimsóknin sú eina og síðasta því aðdráttarafl sólar hrífur þær til sín og þær brenna upp og hverfa til hennar.  Þær halastjörnur sem fara nærri sólu eru kallaðar sólkærar halastjörnur (eða sólsleikjur).  Þá er halastjörnum skipt í skammferða halastjörnur og langferða halastjörnur eftir umferðartíma þeirra um sólu.

 

Halastjörnur eru leifar frá myndun sólkerfisins og eru taldar hafa gegnt lykilhlutverki í þróun lífs á jörðu og jafnvel talið að mikið af því vatni sem er á jörðunni sé ættað frá þessum fyrirbærum, sem á árdögum jarðar hafi skollið á jörðunni í miklu magni.  - KGH 

Joomla16 Appliance - Powered by TurnKey Linux