Stjörnufræðifélag Vestmannaeyja

SFV - Velkomin

Fyrsta myndin af Halastjörnunni Pan-STARRS á Íslandi tekin í Vestmannaeyjum?

  Síðastliðið föstudagskvöld, 15. mars um kl. 20:00 hittust nokkrir félagar í Stjörnufræðifélagi Vestmannaeyja úti á Breiðabakka á Heimaey til þess að reyna að koma auga á Halastjörnuna PanStarrs.

    Fyrirfram var ekki við miklu að búast, því ský huldu mest allan himininn, en í vestri var svolítil glæta af rauðgulum himni.  Ekki mættu margir, enda var búið að gera tilraun kvöldið áður sem endaði í kalsarigninu.  En þarna sátum við og nutum veðurblíðunnar, mauluðum kleinur og biðum þess að skýin þokuðust ofar.  Kindurnar fengu afganginn af kleinunum þegar okkur var að verða bumbult af þeim.  Á meðan á biðinni stóð og menn stigu vondaufir fram og til baka sagði einn í uppörvandi tón að von væri á mjög bjartri halastjörnu í nóvember.  Eftir smá þögn spurði einn nemandinn á byrjendanámskeiðinu kennarann hvort hann mætti ekki fara heim á milli. Jú, það væri að sjálfsögðu leyfilegt.

    Sigð tunglsins gægðist af og til í gegnum skýin, en stoppaði stutt við.  Það er eins og með margt annað, þolinmæðin er ein helsta dyggð stjörnuáhugamannsins. Rétt fyrir kl. 21 sá formaðurinn stjörnu í sólroðanum rétt neðan við skýjahuluna, sem honum fannst líkleg.  Ekki var þó unnt að staðfesta þetta sem halastjörnuna, fyrr en meirihluti stjórnar félagsins var búinn að leggja blessun sína yfir fyrirbærið.

Panstarr séð frá Eyjum

Myndasmiður Heiðar Egilsson - Tekin á Breiðabakka 15. mars 2013, kl. 21:10

     Eftir að mestu fagnaðarlátunum linnti var fylgst með halastjörnunni lækka á himni í kapp við nálæg ský.  Konunglegur aðstoðar-ljósmyndari félagsins, Heiðar Egilsson tók myndir í gríð og erg og okkur til mikillar furðu sást stjarnan miklu betur á myndunum, en með okkar ófullkomnu sjón eða jafnvel sjónaukunum.  Yngra fólkið fylgdist með stjörnunni með berum augum, en hinir störðu og rýndu án mikils árangurs, nema með sjónaukanum.  Hringt var í aðstoðar-tölvumann félagsins sem kom auðvitað stökkvandi og sá fyrirbærið áður en það skreið svo nálægt sjóndeildarhringnum að ekki var unnt að sjá hana vel lengur.  Þá var klukkan orðinn 21:30 og fundi slitið.  Skemmtilegri samverustund var lokið.  Við höldum uppteknum hætti næstu kvöld - stay tuned.   -KGH

Joomla16 Appliance - Powered by TurnKey Linux